Benidorm: líf og fjör alla daga
Benidorm er við Costa Blanca strandlengjuna - flogið er til Alicante flugvallar.
Draumkenndar strendur Benidorm hafa um árabil lokkað til sín sólþyrsta Íslendinga. Svæðið iðar af lífi með sínum hvítu ströndum, glæsilegu háhýsum og fjölbreyttu matarmenningu. Á Benidorm verður fjölskyldan svo sannarlega ekki svikin um draumafríið enda er um að ræða einn þaulreyndasta áfangastað Evrópubúa. Líflegar strendur, dýragarðar, skemmtigarðar, barir ásamt gífurlegum fjölda veitingastaða og kráa. Allt þetta er að finna á Benidorm.
COSTA BLANCA SVÆÐIÐ
- Albír
- Alicante
- Altea
- Benidorm
- Calpe
- Flogið til Alicante (ALC)
- Flugtími +/-4 klst.
- Akstur til Benidorm 30 mín.
- Tungumál: Spænska
- Gjaldmiðill: Evra
- Sumarhiti: 28+°C
- Vetrarhiti: 16+°C
- Milt og gott vor og haust
- Tími: +2 sumar +1 vetur
- Landkóði: +34
Hvítar strendur við Miðjarðarhafið
Þeir sem hafa komið til Benidorm skilja af hverju staðurinn hefur verið einn vinsælasti sumarleyfisstaður Evrópubúa í næstum hundrað ár. Þar er nefnilega hægt að finna allt sem hugurinn girnist og líkaminn þarfnast, eða þarfnast ekki. Á aðra höndina kyssir Miðjarðarhafið tært og óendanlegt, hvítar strendur og á hina rísa kraftmiklir fjallgarðar. Strendur Benidorm bjóða svo bæði upp á letilíf á sólbekk með ölkrús við hönd og fjöruga afþreyingu í sjónum. Krakkarnir njóta sín á hlaupum í mjúkum sandinum og foreldrar hlaða batteríin í sólinni.
Allir finna sitt á Benidorm
Börnin elska Benidorm. Enda hefur staðurinn næstum því hundrað ára reynslu af því að skemmta ferðalöngum á öllum aldri. Dýragarðinn Terra Natura ætti enginn að láta fram hjá sér fara, þar er að finna öll dýr frumskógarins. Munið bara eftir sólarvörninni, því á Benidorm er sól nær allan ársins hring.
Heimsókn í náttúrulífsgarðinn Mundomar gleymir enginn. Garðurinn var stofnaður árið 1996 og er heimili yfir þrjátíu dýrategunda. Terra mitica er svo einn frægasti skemmtigarður heims. Garðurinn er mikil ævintýraveröld þar sem hægt er að kynnast sögu Grikklands, Egyptalands, Rómar og fleiri menningarsvæða og fara í ótal skemmtileg tæki.
Aqualandia er stór vatnsrennibrautargarður þar sem bæði krakkar og fullorðnir skemmta sér konunglega í vatnsrennibrautum og sundlaugum. Þetta er einungis lítið brot af þeirri fjölbreyttu skemmtun sem er í boði fyrir alla aldurshópa á Benidorm.
Á ströndinni er ýmislegt hægt að finna sér til dundurs. Þar er hægt að fara á Jetsky fyrir lítinn pening, leigja hjólabáta eða svamla í heitum sjónum. Á Benidorm er líka einstaklega gaman að leigja hjól. Það kostar hvorki mikinn pening né fyrirhöfn heldur eru nokkrar hjólaleigur staðsettar meðfram strandlengjunni. Öll fjölskyldan getur leigt hjól og hjólað meðfram sjónum í hlýrri sólinni.
Næturlíf Benidorm er fyrir löngu orðið þekkt út fyrir landssteinana. Ballið byrjar rétt eftir miðnætti á flestum næturklúbbunum og er dansað fram undir morgun.
Spænskur draumur í fjöllunum
Þrátt fyrir að borgin hafi verið áfangstaður sólþyrstra ferðamanna um árabil, þarf ekki að leita langt til þess að komast í ekta spænsk þorp í fjöllunum. Einungis stuttur akstur er frá iðandi borginni í lítil fjallaþorp þar sem gaman er að eyða degi eða tveimur, ganga um, sötra öl og njóta þess besta sem Spánn hefur upp á að bjóða.
Þá getur líka verið gaman að heimsækja þorpin að kvöldlagi og kynnast mannlífinu þegar fer að rökkva. Ótal lítil þorp er gaman að heimsækja en við mælum sérstaklega með þessum þorpum:
Albír & Altea
Öll fjölskyldan tekur ástfóstri við hinn einstaka spænska bæ, Albir. Aðdráttarafl hans er einstakt og fegurð staðarins og sólbakað andrúmsloft heilla þá sem vilja eiga friðsælar stundir í fríinu. Í þessum vinalega bæ er að finna lítil notaleg kaffihús, veitingastaði með góðum mat, líflegar krár og verslanir.
Steinsnar frá Albír bíður Altea sem stundum er kallað hið kyrrláta athvarf listamanna. Þar eru þröngar götur og fyrsta flokks veitingastaðir sem seiða til sín ferðalanga í leit að sönnum spænskum anda. Í Altea er tilvalið að setjast niður og njóta, borða ekta spænskt tapas og kannski fá sér eins og eina Sangriu.
Frá gamla bænum í Benidorm er einungis 25 mínútna akstur til Albir. Einnig ganga strætisvagnar til Benidorm og Altea.
Gistingar á Costa Blanca svæðinu
Paraiso Centro er snyrtilegt, einfalt og mjög vel staðsett íbúðagisting stutt frá gamla bænum í Benidorm. Einfaldar, snyrtilegar og rúmgóðar íbúðir með einu eða tveimur svefnherbergjum, eldhúsi, baði, stofu og svölum sem snúa út í garð. Stutt er í alla þjónustu, t.d. matvörumarkaðinn Mercadona, banka og verslanir.